Sameiginlegir skilmálar

Hérna eru sameiginlegar skilmálar nr. 226.

Sameiginlegir skilmálar innifela almenn ákvæði sem gilda um alla aðra vátryggingarskilmála Verna og koma því til viðbótar við þá.

Ákvæði í vátryggingarskírteini, endurnýjunarskírteini og öðrum vátryggingarskilmálum ganga framar ákvæðum í skilmálum þessum. Ákvæði í vátryggingarskírteini, endurnýjunarskírteini og skilmálum þessum ganga framar lagaákvæðum sem heimilt er að víkja frá.

Verna MGA ehf. („Verna“) er umboðsaðili og TM tryggingar hf. („félagið“/“TM“) vátryggjandi.

Um vátrygginguna gilda lög nr.(númer) 30/2004 um vátryggingarsamninga. Upplýsingar um tjónagrunn er að finna í 33. gr.(grein) í skilmálum þessum.

1. KAFLI UPPHAF OG LOK VÁTRYGGINGARSAMNINGS

1. Gildistími

1.1. Vátryggingin tekur gildi þegar Verna hefur samþykkt vátryggingarbeiðni, nema annað sé lögboðið eða samið sé um að hún taki gildi síðar.

1.2. Vátryggingin gildir fyrir það tímabil sem tilgreint er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini. Sé vátryggingunni ekki ætlað að endurnýjast fellur hún niður við lok þess dags sem tilgreindur er í vátryggingarskírteini sem síðasti dagur vátryggingartímabilsins.

2. Endurnýjun

2.1. Vátrygging sem gilda á í eitt ár eða lengur endurnýjast sjálfkrafa um eitt ár í senn, nema vátryggingartaki hafi áður tilkynnt Verna að hann vilji segja vátryggingarsamningum upp eða Verna hafi tilkynnt að vátryggingin verði ekki endurnýjuð. Vátryggingu sem ætlaður er skemmri gildistími endurnýjast ekki og sama á við þegar skýrlega er tekið fram í skilmálum eða í vátryggingarskírteini að vátryggingin falli niður við tiltekið tímamark eða við ákveðnar aðstæður.

2.2. Við endurnýjun vátryggingar getur félagið gert breytingar á vátryggingarskilmálum og iðgjaldi. Slíkar breytingar skal kynna vátryggingartaka um leið og iðgjalds er krafist fyrir næsta vátryggingartímabil.

2.3. Kjósi vátryggingartaki að endurnýja ekki vátrygginguna skal hann tilkynna Verna um það með sannanlegum hætti í síðasta lagi tveimur vikum fyrir lok vátryggingartímabilsins.

3. Upplýsingaskylda við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings

3.1. Vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skal með tæmandi hætti veita Verna þær upplýsingar sem það óskar eftir og haft geta þýðingu fyrir mat þess á áhættu, sbr. (samanber) 19. gr. laga nr. 30/2004. Að auki ber þeim að eigin frumkvæði að veita Verna upplýsingar um sérstök atvik sem þeir vita eða mega vita að hafi verulega þýðingu fyrir mat á áhættu.

3.2. Verði vátryggingartaka eða vátryggðum síðar ljóst að hann hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um áhættuna vegna skaðatryggingar skal hann án ástæðulauss dráttar skýra Verna frá því að eigin frumkvæði.

3.3. Hafi vátryggingartaki eða vátryggður sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína og vátryggingaratburður (hér eftir tjónsatburður) hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð. Hafi vátryggingartaki eða vátryggður með öðrum hætti vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt getur ábyrgð félagið fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 20. gr. laga nr. 30/2004. Sérstakar reglur gilda þó um lögboðnar ábyrgðartryggingar.

4. Heimildir vátryggingartaka til uppsagnar á vátryggingartímanum

4.1. Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi sem endurnýjast sjálfkrafa ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna, fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður sem réttlæta uppsögn eða til að flytja vátrygginguna til annars félags.

4.2. Hyggist vátryggingartaki segja vátryggingu upp vegna flutnings vátryggingar til annars félags skal tilkynna Verna um uppsögn með mánaðar fyrirvara og miðast uppsögn við næstu mánaðamót þar á eftir. Upplýsa skal til hvaða vátryggingafélags er flutt og frá hvaða tíma.

5. Heimildir félagsins til uppsagnar á vátryggingartímanum

5.1. Félagið getur sagt upp vátryggingu í eftirfarandi tilvikum nema annað leiði af lögum:

5.1.1. Ef gefnar hafa verið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um áhættuna við töku tryggingar með 14 daga fyrirvara, sbr. 21. og 84. gr. laga nr. 30/2004. Hafi vátryggingartaki veitt slíkar upplýsingar á sviksamlegan hátt er uppsögn heimil án fyrirvara og getur félagið í þeim tilvikum sagt upp öllum vátryggingarsamningum við viðkomandi.

5.1.2. Ef vátryggður veitir af ásetningi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar vegna tjónsatburðar eða uppgjörs vátryggingarbóta með viku fyrirvara, sbr. 47. og 120. gr. laga nr. 30/2004. Auk þess getur félagið í slíkum tilvikum sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við viðkomandi.

5.1.3. Hafi vátryggður valdið tjóni af ásetningi eða vanrækt skyldur sínar samkvæmt fyrirmælum í vátryggingarsamningi, sbr. gr. 16.1 í skilmálum þessum, með tveggja mánaða fyrirvara. Verði þrjú bótaskyld tjón eða fleiri á 18 mánaða tímabili er Verna heimilt að segja vátryggingunni upp með tveggja mánaða fyrirvara. Sama gildir ef alvarlegur trúnaðarbrestur verður milli félagsins og vátryggingartaka.

5.2. Félagið getur enn fremur sagt upp vátryggingunni, með tveggja mánaða fyrirvara, ef notkun hins vátryggða, starfsemi vátryggðs eða aðstæður að öðru leyti breytast á vátryggingartímanum á þann hátt að:

5.2.1. Verna hefði ekki tekið að sér vátrygginguna ef hinar nýju aðstæður hefðu legið fyrir við töku vátryggingarinnar, eða

5.2.2. það hefur áhrif á möguleika á að endurtryggja áhættuna.

2. KAFLI IÐGJALD OG VÁTRYGGINGARFJÁRHÆÐIR

6. Iðgjald og útreikningur þess

6.1. Vátryggingartaki skal greiða iðgjald eins og það er ákveðið við töku vátryggingar og síðari endurnýjanir hennar. Ákvörðun um iðgjald byggir á iðgjaldaskrá hverju sinni, t.d.(til dæmis) að teknu tilliti til áhættumats, vátryggingarfjárhæðar á endurnýjunardegi, verðlagsþróunar og viðskiptasögu, eftir því sem við á.

6.2. Við ákvörðun iðgjalds er Verna heimilt að afla upplýsinga frá öðrum vátryggjendum um tjónareynslu vátryggingartaka í þeim vátryggingargreinum sem við eiga.

7. Gjalddagi og vanskil

7.1. Iðgjald vátryggingar fellur í gjalddaga þegar greiðslu er krafist. Greiðslufrestur skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem Verna sendir kröfu um greiðslu iðgjalds. Sending tilkynningar, kröfu í heimabanka eða greiðsluseðils jafngildir kröfu um greiðslu. Breytingar á heimilisfangi eða netfangi skal tilkynna Verna þegar í stað.

7.2. Sé iðgjald ógreitt þegar greiðslufresti lýkur, getur Verna sent nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Sé iðgjald ekki að fullu greitt innan 14 daga frá dagsetningu þeirrar tilkynningar fellur vátryggingin þegar úr gildi, sbr. 33. gr. laga nr. 30/2004.

7.3. Þegar vátrygging er tekin með einhliða yfirlýsingu vátryggingartaka er greiðslufrestur iðgjalds 7 dagar frá því að Verna sendir kröfu um greiðslu iðgjalds. Sé iðgjald ekki að fullu greitt innan þess frests fellur vátryggingin þegar úr gildi án frekari fyrirvara.

8. Uppgjör iðgjalda við slit samnings á vátryggingartímanum

8.1. Þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartímabilinu skal greiða iðgjald fyrir þann tíma sem vátryggingin var í gildi en iðgjald endurgreiðist hlutfallslega fyrir þann hluta tímabilsins sem þá þegar eru greidd. Sé andvirði hins vátryggða greitt út við altjón eða vátryggingarfjárhæðin greidd út að fullu af annarri ástæðu og vátryggingin fellur niður af þeim sökum kemur ekki til endurgreiðslu iðgjalds. Iðgjald skammtímatrygginga endurgreiðist aldrei.

9. Vátryggingarfjárhæð

9.1. Vátryggingarfjárhæð kemur fram í vátryggingarskírteini og miðast að öllu jöfnu við heildarverðmæti hins vátryggða. Í lögboðnum vátryggingum er vátryggingarfjárhæð ákveðin samkvæmt lögum.

9.2. Vátryggingarfjárhæð afmarkar þær hámarksbætur ásamt kostnaði sem geta komið til greiðslu á vátryggingartímabilinu í heild og einnig vegna hvers einstaks tjónsatburðar fyrir hvern vátryggðan hlut. Upphæð vátryggingarfjárhæðar telst þó ekki sönnun á verðmæti hinna vátryggðu hagsmuna fyrir tjónsatburð.

9.3. Vátryggingartaka og vátryggðum ber sjálfum að gæta þess að vátryggingarfjárhæð sé í samræmi við áhættu hans eða verðmæti hins tryggða á hverjum tíma.

10. Eigin áhætta

10.1. Hlutfall og fjárhæð eigin áhættu, sem vátryggingartaki ber í hverju tjóni, kemur fram í vátryggingarskírteini. Nái höfuðstóll bótakröfu ekki eigin áhættu, miðað við fjárhæð hennar á tjónsdegi, kemur ekki til greiðslu bóta úr vátryggingunni en að öðrum kosti kemur fjárhæð eigin áhættu til frádráttar greiðslu við bótauppgjör.

10.2. Í lögboðnum ábyrgðartryggingum hefur eigin áhætta ekki áhrif á réttarstöðu tjónþola sem á rétt til greiðslu óskertra bóta án tillits til eigin áhættunnar.

11. Gjaldmiðill

11.1. Fjárhæðir vátryggingarinnar eru í íslenskum krónum (ISK).

3. KAFLI SKYLDUR VÁTRYGGÐS VEGNA TJÓN

12. Ráðstafanir til varna tjóni

12.1. Þegar tjónsatburður hefur orðið eða yfirvofandi hætta er á að hann verði ber vátryggðum og tjónþola að reyna af fremsta megni að afstýra tjóninu eða draga úr umfangi þess. Einnig ber vátryggðum að hlíta sanngjörnum og eðlilegum fyrirmælum félagsins sem eru til þess fallin að draga úr tjónshættu eða umfangi tjóns. Vátryggingartaka og vátryggðum ber jafnframt að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja möguleika félagsins á endurkröfu á hendur þriðja aðila þegar slíkt á við, þar til félagið getur sjálft gætt hagsmuna sinna. Vanræksla á framangreindum skyldum getur haft í för með sér lækkun eða missi bótaréttar, sbr. 28. gr. laga nr. 30/2004.

12.2. Sé um bótaskyldan tjónsatburð að ræða getur vátryggður krafist endurgreiðslu þeirra útgjalda og þess tjóns sem hann verður fyrir við framangreindar ráðstafanir að því marki sem þær teljast sérstakar og réttlætanlegar, sbr. 38. gr. laga nr. 30/2004.

13. Tilkynning um tjón

13.1. Þegar tjón hefur orðið skal vátryggður, eða eftir atvikum rétthafi bóta, tafarlaust og án ástæðulauss dráttar tilkynna Verna það skriflega eða með öðrum sannanlegum hætti. Ef um ábyrgðartryggingu er að ræða gildir hið sama þegar vátryggður fær vitneskju eða grun um að skaðabótakrafa, sem ætla má að vátryggingin nái til, verði gerð á hendur honum.

13.2. Þjófnað, innbrot, rán, skemmdarverk eða árás skal þegar í stað tilkynna lögreglu með ósk um rannsókn og framvísa skýrslum um það hjá Verna.

14. Upplýsingaskylda vegna tjónsatburðar

14.1. Vátryggðum eða öðrum þeim sem hyggjast gera kröfu úr vátryggingunni ber að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og umfang þess. Þessir aðilar skulu veita Verna þær upplýsingar og afhenda þau gögn sem þeir eiga aðgang að og Verna/TM telur nauðsynleg til þess að geta metið ábyrgð sína og umfang tjóns. Vátryggðum ber að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að Verna/TM fái réttar og fullnægjandi upplýsingar um málsatvik og orsakir tjóna. Framangreindar upplýsingar skulu veittar Verna/TM að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu Verna/TM og án endurgjalds.

14.2. Veiti vátryggður af ásetningi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar við uppgjör bóta fellur niður allur réttur hans samkvæmt þessum og öðrum vátryggingarsamningum vegna hins tiltekna tjónsatburðar, sbr. 47. gr. laga nr. 30/2004. Í slíkum tilvikum getur félagið jafnframt sagt upp öllum vátryggingarsamningum við vátryggðan með einnar viku fyrirvara, sbr. 5. gr. skilmálanna.

4. KAFLI ATVIK SEM HAFT GETA ÁHRIF Á VÁTRYGGINGAVERND OG BÓTARÉTT

15. Aukin áhætta

15.1. Vátryggingartaki skal tilkynna Verna tafarlaust um breytingar sem varða hina vátryggðu áhættu í skaðatryggingum. Með breytingum er hér átt við hvers kyns breytingar á notkun eða notkunarsviði hins vátryggða samkvæmt vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini, lán eða leigu, sölu eða öðru framsali eigna- eða afnotaréttar hins vátryggða, skráningu eða afskráningu hins vátryggða eða hverjar aðrar breytingar, sem haft geta í för með sér aukna áhættu fyrir félagið. Sé látið hjá líða að veita Verna slíkar upplýsingar, sem leitt hefðu til hærra iðgjalds eða annarra skilmála, getur bótaréttur fallið niður að hluta eða öllu leyti samkvæmt reglum 24. og 25. gr. laga nr. 30/2004.

16. Ekki farið að fyrirmælum í vátryggingarsamningi

16.1. Sum fyrirmæli í vátryggingarsamningi eru sett í því skyni að koma í veg fyrir eða takmarka tjón. Það er forsenda fyrir greiðslu bóta úr vátryggingunni að þessum fyrirmælum sé ávallt fylgt. Hafi vátryggður vanrækt að hlíta fyrirmælum í vátryggingarsamningi má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga nr. 30/2004.

17. Undirtrygging

17.1. Nauðsynlegt er að vátryggingarfjárhæðin sé ávallt í samræmi við verðmæti hins vátryggða. Sé vátryggingarfjárhæðin lægri en verð hinna vátryggðu hagsmuna, er ábyrgð félagsins aðeins hlutfallsleg eftir mun þeim, sem er á vátryggingarfjárhæðinni og heildarverðmæti hins vátryggða.

18. Vátryggður veldur tjónsatburði

18.1. Hafi vátryggður af ásetningi valdið því að tjónsatburður varð ber félagið ekki ábyrgð, sbr. 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 89. gr. laga nr. 30/2004.

18.2. Hafi vátryggður valdið því af stórkostlegu gáleysi að tjónsatburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefði orðið má lækka eða fella niður ábyrgð félagsins, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004.

19. Háttsemi annarra einstaklinga en vátryggðs

19.1. Ákvæði sem kveða á um að réttur vátryggðs eða þriðja aðila til bóta úr skaðatryggingum skerðist eða falli niður vegna athafna eða athafnaleysis vátryggðs eiga einnig við um samsvarandi háttsemi maka vátryggðs sem býr með honum og manns sem hinn vátryggði býr með í föstu varanlegu sambandi, samkvæmt b-lið 2. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004. Sama gildir um háttsemi þess aðila, sem með samþykki eiganda eða umráðamanns er ábyrgur fyrir vátryggðu ökutæki, sbr. a-lið 2. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004.

20. Tímafrestir og fyrning bótakrafna

20.1. Vátryggður glatar rétti til bóta ef:

20.1.1. hann tilkynnir Verna ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á, eða

20.1.2. hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum innan árs frá því að hann fékk sannanlega tilkynningu um að kröfu hans væri hafnað, sbr. 51. gr. og 124. gr. laga nr. 30/2004.

20.2. Krafa vátryggðs um bætur fyrnast samkvæmt reglum 52. gr. eða 125. gr. laga nr. 30/2004. Sérreglur kunna að gilda um fyrningu samkvæmt lögum á einstökum sviðum.

5. KAFLI ALMENNAR TAKMARKANIR Á GILDISSVIÐI

21. Upplýsingatækni og netglæpir

21.1. Félagið bætir ekki hvers kyns tjón sem án tillits til orsaka hlýst af eyðingu eða skaðlegum breytingum á rafrænum upplýsingagögnum eða hugbúnaði eða því að dregið hefur úr virkni, notagildi eða aðgangi að tölvukerfum eða rafrænum miðlum. Félagið bætir heldur ekki hvers kyns tjón, sem beint eða óbeint hlýst af netglæpum eða annarri skaðlegri notkun eða starfrækslu tölva, rafeindakerfa eða hugbúnaðar, hvort sem er með eða án vilja, svo sem tölvuárása, svika eða dreifingar tölvuvírusa, spilli- eða njósnaforrita, afritunarbúnaðar o.þ.h.

22. Ófriðarátök, hryðjuverk, kjarnorka og gjöreyðingarvopn

22.1. Félagið bætir ekki tjón sem beint eða óbeint orsakast af hvers konar ófriðarátökum og valdbeitingu svo sem styrjöld, borgaraátökum, byltingu, andspyrnu, herlögum eða herstjórn, uppþoti eða óspektum. Sama gildir um tjón vegna sprengingar, geislunar, eitrunar, mengunar eða annarra áhrifa kjarnorku, m.a. kjarnavopna, kjarnorkueldsneytis eða kjarnorkuúrgangs og tjón sem orsakast af veiru- eða sýklaárásum, notkun efna-, lífefna- eða rafsegulvopna eða annars konar vopna, sem byggja á klofningu eða samruna frumeinda eða kjarna.

22.2. Félagið bætir ekki tjón sem beint eða óbeint má rekja til líffræðilegra eða efnafræðilegra áhrifa af völdum hvers konar hryðjuverka, meðal annars eitrunar, mengunar eða tjóns af völdum baktería, sýkla eða veira.

23. Náttúruhamfarir og skyld atvik

23.1. Félagið bætir ekki tjón sem verður vegna eldgoss, jarðskjálfta, skriðufalls, snjóflóðs, vatns- eða sjávarflóðs og hvers kyns náttúruhamfara án tillits til orsaka þeirra. Eignatjón vegna náttúruhamfara eru bætt af Náttúruhamfaratryggingu Íslands skv. lögum nr. 55/1992 í samræmi við reglur stofnunarinnar.

24. Verkfallsaðgerðir og farsóttir

24.1. Félagið bætir ekki tjón sem hlýst af vinnustöðvun, verkfalli eða verkfallsaðgerðum af neinu tagi. Félagið bætir ekki tjón, sem beint eða óbeint hlýst af farsótt eða smitsjúkdómum af hvaða tagi sem er.

25. Sektir og viðurlög

25.1. Félagið greiðir ekki bætur vegna sekta eða annarra refsiviðurlaga af neinu tagi.

6. KAFLI MEÐFERÐ BÓTAKRAFNA OG UPPGJÖR BÓTA

26. Réttur félagsins til að semja við tjónþola og annast málsvörn í ábyrgðartryggingum

26.1. Í ábyrgðartryggingum á félagið fullan og óskoraðan rétt til að annast samninga og uppgjör við tjónþola vegna kröfu hans á hendur vátryggðum og eftir atvikum að vera í forsvari fyrir og annast málsvörn innan eða utan réttar. Félagið ber kostnað við þessar aðgerðir eftir því sem nánar greinir í skilmálum þessum. Komi til dómsmáls sem varðar ábyrgðartryggingu bifreiðar og félaginu er einu stefnt, getur það krafist þess að málshöfðun sé einnig beint gegn vátryggðum.

26.2. Félaginu er heimilt að greiða bætur beint til tjónþola. Komi fram skaðabótakrafa, getur félagið á hvaða stigi málsins sem er fullnægt skuldbindingum sínum og losnað við frekari greiðslur með því að greiða höfuðstól bótakröfu, áfallna vexti og kostnað að hámarki sem svarar til vátryggingarfjárhæðar, eftir atvikum að frádreginni eigin áhættu.

27. Virðisaukaskattur

27.1. Eigi vátryggður eða tjónþoli rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts áskilur félagið sér rétt til að haga framkvæmd á viðgerð og/eða uppgjöri tjóns á þann veg að endurgreiðsla virðisaukaskatts komi til lækkunar á fjárhæð tjónsins í samræmi við lög eða reglugerðir þar um.

28. Bótagreiðslur

28.1. Krefjast má greiðslu bóta 14 dögum eftir að félaginu berast fullnægjandi gögn til þess að staðfesta greiðsluskyldu þess og meta bótafjárhæð.

28.2. Vátryggðum eða tjónþola ber að framvísa skemmdum lausafjármunum og afhenda félaginu þá ef þess er óskað. Þegar félagið greiðir bætur fyrir altjón á lausafjármunum öðlast það eignarrétt að þeim, nema félagið afsali sér þeim rétti eða annað leiði af samningi við vátryggðan eða tjónþola. Ber vátryggðum að gefa út afsal fyrir þeim hlut sem varð fyrir tjóni ef félagið fer fram á það.

29. Gagnaöflun og greiðsla kostnaðar

29.1. Félagið greiðir ekki kostnað vegna lögmannsaðstoðar né heldur annan kostnað sem stofnað er til vegna vátryggingaratburðar án samþykkis félagsins. Í ábyrgðartryggingum greiðir félagið þó nauðsynlegan kostnað, sem til er stofnað með samþykki félagsins til þess að skera úr um skaðabótaskyldu vátryggðs eða bótafjárhæð í samræmi við almennar skaðabótareglur, þótt greiðsla félagsins verði af þeim sökum umfram vátryggingarfjárhæðina. Sé vátryggingarfjárhæð lægri en höfuðstóll bótafjárhæðar hærri en vátryggingarfjárhæðin greiðist aðeins sá hluti kostnaðar sem svarar til vátryggingarfjárhæðar.

30. Skuldajöfnun

30.1. Félagið hefur heimild til að skuldajafna vangoldnum iðgjöldum gegn vátryggingarbótum sem því ber að greiða samkvæmt 49. og 122. gr. laga nr. 30/2004.

31. Endurkröfuréttur

31.1. Eigi einhver hinna vátryggðu fjárkröfur á hendur þriðja manni vegna tjóns öðlast félagið rétt vátryggða að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur.

31.2. Félagið á ætíð endurkröfurétt á hendur vátryggingartaka og vátryggðum, hafi félagið greitt bætur eftir að vátrygging hefur fallið niður eða í tilvikum þar sem ábyrgð félagsins er ekki fyrir hendi samkvæmt vátryggingarsamningi. Hafi félagið greitt bætur úr ábyrgðartryggingu vegna tjóns, sem rakið verður til ásetnings vátryggðs öðlast félagið endurkröfurétt á hendur vátryggingartaka eða vátryggðum fyrir greiddum bótum ásamt vöxtum og kostnaði.

7. KAFLI ÝMIS ÁKVÆÐI

32. Tjónagrunnur

32.1. Tilteknar upplýsingar um tjón sem tilkynnt eru í trygginguna eru færðar í tjónagrunn sem Samtök fjármálafyrirtækja reka samkvæmt sérstöku leyfi frá Persónuvernd. Félagið ber ábyrgð á vinnslu upplýsinganna en Creditinfo er vinnsluaðili þeirra.

32.2. Tilgangur vinnslu upplýsinga í tjónagrunninum er að stemma stigu við tryggingasvikum og koma í veg fyrir ofgreiðslu tryggingabóta. Þessar upplýsingar eru skráðar í tjónagrunninn:

  • Kennitala tjónþola
  • Númer máls hjá félaginu
  • Tegund tryggingar
  • Tegund tjóns
  • Dagsetning tjóns
  • Dagsetning skráningar í grunninn
  • Nafn viðkomandi vátryggingarfélags
  • Staðsetning tjóns
  • Einkvæmt númer þess tryggða, s.s. ökutækis.

32.3. Starfsmenn Verna/TM sem starfa við skráningu tjóna og tjónauppgjör hafa einir aðgang að upplýsingum í grunninum. Upplýsingunum verður eytt þegar ekki er lengur þörf fyrir þær í þágu tilgangs vinnslunnar, í síðasta lagi þegar tíu ár eru liðin frá skráningu.

33. Meðferð ágreiningsmála

33.1. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sker úr réttarágreiningi milli vátryggingafélags og þess sem telur sig eiga kröfu á hendur félaginu og ágreiningurinn varðar m.a. bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu, auk ágreinings um atriði er varða ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga og fjárhæðir, allt eins og nánar greinir í samþykktum nefndarinnar Nánari upplýsingar um nefndina og málskot til hennar má nálgast á vefsíðu hennar, www.nefndir.is, svo og á vefsíðu Verna, www.verna.is. Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni skerðir ekki rétt málskotsaðila til þess að leggja málið fyrir almenna dómstóla.

33.2. Í lögboðinni bifreiðatryggingu má leggja ágreining um sakarskiptingu fyrir tjónanefnd vátryggingafélaganna, neytanda að kostnaðarlausu. Álit nefndarinnar eru ekki bindandi og má skjóta áfram til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

34. Varnarþing og lagaskil

34.1. Varnarþing félagsins er í Reykjavík. Mál sem kunna að rísa á hendur félaginu út af vátryggingu þessari, skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þó er félaginu einnig heimilt að höfða mál út af vátryggingunni á heimilisvarnarþingi vátryggingartaka.

Skilmálar þessir gilda frá 8.apríl 2022